Færsluflokkur: Matur og drykkur

Mangó og tófúsalat

tofumango

 

 

 

 

 

 

Eurovison, Listahátíð, kosningar: Þetta verður frábær helgi og í tilefni hennar býð ég upp á uppskrift af rauðgullnu sigursalati handa Eiríki okkar rauða.

Það er eitthvað við þetta salat sem framkallar í huganum myndir af blómsveigum, strápilsum og húlla-húlladansi. Með öðrum orðum þá er hér ómótstæðilegur hollustukostur stútfullur af fjöri og ferskleika sem þjóðin hlýtur að kjósa fram yfir allt.  

 

425 g stíft tófú (þerrað vel og skorið í sneiðar), 2 msk tamarisósa, 4 msk ólífuolía, 2 msk sesamfræ,1 poki klettasalatsblanda, 5-6 sneiðar af niðursoðinni rauðrófu (skornar í strimla),1 mangóávöxtur (þroskaður en ekki linur, skorinn í sneiðar),1 lítill rauður laukur (skorinn í örþunna fleyga), salt og nýmalaður pipar.

Sósa:2 msk lögur af niðursoðnum bleikum engifer,2 msk púðursykur,2 msk pressaður engifer (rifinn og safinn kreistur úr honum),sletta af tabasco. 

1. Skerið tófuið í sneiðar, veltið þeim upp úr tamarisósunni, og setjið til hliðar. 

2. Hitið 2 msk af olíu á pönnu og steikið sesamfræin og tófusneiðarnar saman þar til tófusneiðarnar hafa brúnast dálítið á báðum hliðum og töluvert af sesamfræjum loðir við hverja sneið. Takið sneiðarnar þá af pönnunni.

3.Bætið afganginum af olíunni á sömu pönnu og steikið mangósneiðarnar þar til þær hafa brúnast fallega á jöðrunum. Takið þær þá af pönnunni og setjið til hliðar.

4.Setjið salatið á sömu pönnu ásamt megninu af rauðlauknum og látið velkjast í litla stund á pönnunni.

5.Útbúið sósuna með því að blanda engiferlegi, púðursykri, pressuðum engifersafa, og tabasco saman í skál.  Hellið blöndunni svo á sömu pönnu og notuð var áður. Látið sósuna hitna varlega þar til sykurinn hefur leysts upp. Skiptið salatinu á 4 diska og raðið ofan á það tófusneiðunum, mangósneiðunum, og rauðrófustrimlunum. Hellið sósunni yfir og skreytið með rauðlauk.


Hægt eldaðir lambaskankar með jarðarberjum og myntu

Lamb með jarðarberjum og myntu

 Eldhústilraun 2. hluti:

 
 
 
Þegar potturinn hafði verið í ofninum í um klukkutíma tók  sætur ilmur af berjum og kjöti og myntu að streyma um íbúðina.  Gat það verið að eitthvað sem ilmaði svo vel væri ekki gott? Eftir 5 klukkutíma eldun gægðist ég ofaní pottinn og tók þá ákvörðun að bæta fáeinum soðnum kartöflum útí, bæði til þess að gera réttinn matmeiri og lika til að þurrka upp safann sem nóg var af.  Fjórir fjölskyldumeðlimir nutu krásanna og er skemmst frá því að segja að hverri einustu örðu og flís var var sporðrennt og mikið sleikt út um og smjattað. Sem sagt algert sugsess!  

 

 
4 lambaskankar
250g jarðarber
1 væn steinseljurót
2 gulrætur
2 rauðir laukar
4 skalotlaukar
lúkufylli af ferskri myntu
1 dl eplaedik
1 dl trönuberjasafi
salt og pipar
4 soðnar kartöflur

1.
Nuddið lambaskankana með eplaediki, saltið þá og piprið og komið fyrir í eldföstum potti með loki.
2.
Skerið grænmetið og jarðarberin frekar gróft og setjið í pottinn. Hellið afganginum af edikinu og trönuberjasafanum yfir, saltið og piprið ögn meira og stráið svo saxaðri myntu yfir að lokum.
3.
Setjð lokið á  pottinn og bakið í 160 gráðu heitum ofni í um 6 klukkutíma. Þegar  30 mínútur eru eftir af eldunartímanum setjið þá gróft brytjaðar soðnar kartöflur út í pottinn. Áður en rétturinn er borin fram stráið þá niðurskornum jarðarberjum og ferskri myntu yfir til skrauts.


Tilraunaeldhús

DSC_0035
 
 
 
 
 
Ég er oft spurð að því hvernig uppskriftirnar mínar verði til. Hér gefst lesendum kostur á að fylgjast með tilraun úr eldhúsi Hnífs og skeiðar í beinni:
 
Hráslaginn í morgun kveikti löngun í eitthvað heitt og hægeldað. Lambaskankar, sem legið höfðu og meirnað í nokkra daga, voru til í ísskápnum og kölluðu á notkun. Við hliðina á þeim í skápnum voru yndislega þrútin og falleg, spænsk jarðarber, það ferskasta sem fékkst í grænmetisdeild Bónus í gær. Aldrei var ætlunin að nota þessi tvö hráefni saman en sem ég horfi í aðdáun á berin slær þeirri hugsun niður að lambakjöt og ávaxtasulta séu nú aldeilis margreynd, fyrirtaks samsetning. Hvers vegna ekki að prófa að hægelda dásemdirnar saman? Sætuna nauðsynlegu ætla ég að reyna ná fram með lauk, gulrótum og steinseljurót sem líka gefa fallegan lit og áferð. Salt auðvitað og pipar. Var að hugsa um að krydda með blóðbergi en þar sem það var allt uppurið tek ég ferska myntu úr skápnum og strái yfir. Eftirá að hyggja er hún miklu meira spennandi kostur en blóðbergið. Væti aðeins í með eplaediki og ávaxtasafa. Loka leirpottinum góða og set í 160 gráðu heitan ofninn. Nú ætla ég að leyfa kjöti, berjum, rótum, lauk og kryddi að hitna í ró og næði, losa um safa sína og mingla í um 6 klukkutíma í von um að úr verði yndislegt harmoný.  Verður rétturinn of súr? Ekki nógu fallegur? Hvað heldur þú?
 
Svörin við þessum æsispennandi spurningum verða ljós eftir nokkra klukkutíma.

Aprílnúðlur

DSC_0814

 

 

 

 

 

Í þessum grimmasta mánuði ársins, þegar vor og vetur stríða daglega um yfirráð lofthjúpsins, getur skipt sköpum fyrir viðkvæmar verur að njóta matar sem er seðjandi bæði fyrir sál og líkama. Þessi réttur er akkúrat þannig. Ekki skiptir öllu máli hvaða fiskur eða grænmeti er notað, ef ferskri myntu og öðru kryddmeti er haldið til haga með núðlunum.

 

250g núðlur
300 g skötuselur
2 hvítlauksgeirar
1 rauður chili
1 tsk sykur
safi af 1/2 súraldini eða sítrónu
2 cm biti af ferskum engifer
1 búnt vorlaukur
1 gulrót
1/2 rauð paprika
2 dl frosnar grænar baunir
hnefafylli af ferskri myntu
2-3 msk ostrusósa


1.
Sjóðið eggjanúðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka. Sigtið vatnið svo frá og skolið núðlurnar í köldu vatni.

2.
Skerið fiskinn í þumlungsstóra bita.  Saxið hvítlauk og chili fínt, setjið í litla skál og hrærið sykri saman við. Hitið olíu á pönnu og steikið hvítlauksblönduna ásamt fiskbitunum í 2-3 mínútur. Takið af pönnunni , kreistið sítrónusafa yfir og setið til hliðar.

3.
Skerið grænmetið smátt og rífið engiferinn. Hitið olíu á pönnu og snöggsteikið grænmetið og engiferinn.  Setjið því næst núðlurnar út á pönnuna ásamt baununum. Steikið áfram í 2-3 mínútur, setjið þá fiskinn og safann með honum útá ásamt ostrusósunni og saxaðri myntunni. Veltið öllu saman og steikið áfram í 2-3 mínútur.  Setjið í skálar og njótið.


Salat með vatnssteiktu grænmeti

salat

Að steikja með vatni frekar en olíu er matreiðsluaðferð sem ég mæli hiklaust með.
 Hollustuspekúlant nokkur kom í sjónvarpið nýlega og talaði illa um olíusteikingar en mælti eindregið með vatnssteikingum sem hann sagði að hefði verið algeng fyrr á öldum.             
   Vatnssteiking er ekki eins og suða, því við vatnssteikingu hitnar maturinn á annan hátt og nær jafnvel að brúnast aðeins vegna þess hve vatnið er í litlu magni.  Krydd sem sett er útí virkar líka vel og á annan hátt en við suðu. Eftir steikinguna er olíu svo hellt yfir að vild. Ég notaði stálpönnu, veit ekki hvort teflon virkar jafn vel.
 
Prófið þetta salat mér finnst það algert æði. Gott eitt sér og frábært með fiski

 
1 miðlungs stór stilkur af spergilkáli
2 gulrætur
5-6 sveppir
1 steinseljurót (má sleppa)
2 msk graskersfræ
5 sneiðar sólþurrkaðir tómatar í olíu
1 dl vatn
salt
10 lauf fersk basilika
1-2 msk ólifuolía (bragðbætt með basiliku mjög góð)
1/2  poki klettasalatsblanda

1.    
Skerið spergilkálið  og sveppina smátt og gulrætur og steinseljurót í þunnar sneiðar. Hitið pönnuna. Þegar pannan er orðin heit hellið þá um 1/2 dl af vatni út á.  Setjið grænmetið út á pönnuna og steikið það í vatninu í um 5 mínútur.  Hrærið í  á meðan steikingu stendur og dreypið meira vatni  út á ef þörf er á. Eftir 5 mínútna steikingu setjið graskersfræin á pönnuna og steikið áfram í 2 mínútur. Takið pönnuna af hitanum og saltið.
 
2.    
Skerið sólþurrkuðu tómatana smátt og saxið basilikuna. Blandið steikta grænmetinu, tómötum, basiliku og klettasalati saman í skál og dreypið olíunni yfir. Berið fram og njótið.



Að gera sér mat úr Zizek

zizek
 
Ég lofaði í byrjun bloggskrifa minna að fátt yrði mér óviðkomandi hér á þessari síðu. Vonandi gerir sér einhver samt mat úr þessu...
  
    Slavoj Zizek er poppstjarna í heimi mennigarfræða. Það sýndi sig vel í síðustu viku þegar kenningaþyrstir Íslendingar hópuðust í Öskju til að berja goðið augum og hlusta á fyrirlestur hans um það hvernig list geti verið róttæk  (subversive)  kollvarpandi, undangrafandi.

Við þurfum kenningar. Voru lokaorð prófessorsins, eftir nær tveggja tíma tölu þar sem hann boðar afturhvarf til aga og fagmennsku í listum. Það eitt að brjóta reglur og ganga fram af fólki hefur engin áhrif lengur að hans dómi, en þeir sem vilja hafa áhrif  með list sinni ættu frekar að beina sjónum að fjölmörgum svæðum og sviðum vestrænnar menningar sem við látum eins og séu ekki til.
(Þetta eru auðvita ekki ný vísindi. Ég man t.d. eftir kafla í Sérherbergi Virginíu Woolf (125 ára) þar sem hún hvetur listakonur til að gera akkúrat þetta.)
   
     Zizek er fyrst og fremst greinandi, hann kemur ekki með kenningar á silfurfati heldur bendir  á vöntunina í gnægðunum með hjálp frá Lacan. Nautnastefna vesturlandabúa er hol og snauð. Við viljum allt, en kaffið okkar er orðið koffeinlaust, gosdrykkirnir sykurlausir, smjörið fitusnautt, Kjarnanum og umfinu úr viðurværi okkar (andlegu og líkamlegu) hefur verið eytt á vísindalegan hátt svo við mettumst ekki en neysla og kaupmáttur haldi áfam að aukast. (Skv kapítalismanum helst þetta tvennt í hendur.) Geir Haarde sagði í sjónvarpinu á mánudaginn eitthvað á þá leið að það skipti mestu máli að kaupmátturinn hafi aukist. En á kostnað hvers Geir?  
   Engin stjórnmálastefna er lengur til sem dregur ágæti kapítalísks hagkerfis í efa.  Þannig er tilvistarkreppa vinstrimanna tilkomin þegar andstöðu þeirra við kapítalismann hefur verið eytt eins og koffeini úr kaffi.  Samkvæmt Zizek þá er tími til komin að fletta umbúðum af og horfast í augu við afleiðingar heimskapítalsismans. Þegar við sjáum tómleikann í afmælisveislu mesta kapítalista Íslands  annarsvegar og náum að skilja á breiðum grunni fórnirnar sem færðar eru  til að viðlíka veislur geti átt sér stað, þá fyrst getum við dæmt um hvort kapítalískt hagkerfi og mannúð geti haldist í hendur. 
Þetta segir Zizek og margt margt fleira. Ég bendi þeim sem vilja kynna sér hann betur á að leita að honum á utube.com en þar er fjöldi upptaka af fyrirlestrum hans og brot úr heimildamyndum um hann. Ég kann því miður ekki að setja slíkt hér inn.


Lamb með eplum og myntu

Lamb með eplum og myntu

Hjónaband lambakjöts og myntu er sannkallað hamingjuband. Myntan er frískandi og létt og myndar góða andstæðu við staðgott og jarðbundið lambakjötið. Þar að auki er þetta einn allra auðveldasti veisluréttur sem hugsast getur. Hann má útbúa á 10 mínútum eftir að gestirnir eru mættir. 

600 gr lamba filet, salt og pipar, blóðberg eða timian, smjör til steikingar, 11/2 stór græn epli (kjarnhreinsuð og rifin), 2 dl fersk mynta (söxuð smátt), 2 msk hvítvínsedik, 1 msk hunang 

1. Útbúið myntumaukið með því að blanda rifnu eplunum og söxuðu myntunni saman við hvítvínsedik og hunang. 

2. Skerið hvert filet í tvo hluta, kryddið með salti, pipar og blóðbergi. Steikið bitana á heitri pönnu, snúið pöruhliðinni niður fyrst og steikið í 2 mínútur - eða þar til paran hefur brúnast fallega. Lækkið hitann, setjið klípu af smjöri á pönnuna, og steikið bitana á hinni hliðinni við meðalhita í 5-7 mínútur, eða þar til kjötið er mátulega steikt eftir smekk hvers og eins. Saltið og piprið á báðum hliðum. 

3.Berið kjötið fram á beði af myntumauki.

 


Fegurð Austurlands

DSC_0598

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Öll ættin er montin af Vilborgu Egilsdóttur. Jafnt rauðsokkur sem feministar, róttækir heimspekinemar og vísindamenn með steinhjarta.  Hún er klár og falleg, ákveðin og dugleg. Hún mun komast þangað sem hún vill.


Baklava eða Hunangshnetukonfekt

DSC_0635

  

Réttir, eins og Baklava, sem fólk hefur matreitt og notið í þúsundir ára, hljóta að hafa eitthvað alveg sérstakt við sig.
Þessir hunangsklístruðu hnetubitar umluktir fíngerðum fylloflögum voru fæði eðalborinna í Grikklandi til forna og þóttu ástarvaki hinn besti. Nú fæst Baklava í sjoppum og búllum út um allan heim. og margar þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs státa af sínu eigin afbrigði. Stundum eru valhnetur notaðar og stundum pistasíur, stundum sitrónusafi eða appelsínusafi. Hér er einföld uppskrift af Baklava fyrir þá sem vilja spreyta sig og komast með bragðlaukunum í lauflétta snertingu við nið aldanna.

 


1 pk frosið fyllo deig
100g bráðið smjör
150g  fínt saxaðar valhnetur
1 dl sykur
1/2 tsk kanill
1 dl sykur
1 dl fljótandi hunang
1 dl vatn
1 msk sítrónusafi

1.
Látið fyllodeigið þiðna eins og sagt er til um á pakkanum. Flettið deiginu í sundur. Smyrjið bökuform og leggið helminginn af deigþynnunum, lag fyrir lag, í botninn á forminu. Penslið hvert lag fyrir sig með bráðnu smjöri. Ef þynnurnar passa ekki í formið, brjótið þær þá til eins og þarf.
2.
Blandið hnetunum, sykri og kanil saman og stráið yfir lögin í botninum. Leggið því næst afganginn af fyllodegsþynnunum yfir hneturnar, lag fyrir lag og pennslið hvert lag eins og áður. Ef afgangur er af smjöri hellið því þá yfir efsta lagið.
3.
Skerið  kökuna í tígullaga bita og bakið við 200 gráður í um 20 mínútur.

4.
Útbúið sírópið á meðan. Setjið sykur hunang og sítrónusafa í pot tog látið malla í um 20 mínútur. Kælið og hellið jafnt yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum.

Geimist í ískáp. Sélega ljúffengt með sætu og góðu myntutei
 


Kúskússalat

4brohkuskus

 Elva, vinkona mín, er frábær kokkur sem alltaf  er gaman að elda og borða með. Þetta kúskússalat  er stæling af salati sem ég fékk hjá henni í sumar. Límónubörkur, grillað grænmeti  og nokkur salatblöð gera daufgert kúskús að glæsilegum mat og frábæru meðlæti. Fyrir þá sem eru ævintýragjarnir þá er mjög gott að bæta chili í einhverju formi út í salatið.

300 g kúskús, 500 ml sjóðandi vatn,1 rauð paprika, 1 gul paprika, 1/2 rauður laukur (flysjaður og skorinn í pappírsþunna fleyga), fínt rifinn börkur af 1/2 límónu, 100 g klettasalatsblanda, salt og smjör 

1.Útbúið kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakka. Saltið og setjið klípu af smjöri út á í lokin og hrærið í kúskúsinu með göfflum til þess að kornin loði ekki eins mikið saman.  

2.Grillið paprikurnar á heitu grilli þar til þær hafa mýkst og kolast aðeins. Látið þær kólna áður en  þær eru fræhreinsaðar og skornar í ræmur.  

3.Setjið límónubörkinn útí kúskúsið og blandið vel. Látið því næst paprikuræmurnar, laukinn og klettasalatsblönduna útá og veltið öllu léttilega saman. Frábært salat með öllum fiski og ljósu kjöti.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband