7.3.2007 | 17:56
Kúskússalat
Elva, vinkona mín, er frábær kokkur sem alltaf er gaman að elda og borða með. Þetta kúskússalat er stæling af salati sem ég fékk hjá henni í sumar. Límónubörkur, grillað grænmeti og nokkur salatblöð gera daufgert kúskús að glæsilegum mat og frábæru meðlæti. Fyrir þá sem eru ævintýragjarnir þá er mjög gott að bæta chili í einhverju formi út í salatið.
300 g kúskús, 500 ml sjóðandi vatn,1 rauð paprika, 1 gul paprika, 1/2 rauður laukur (flysjaður og skorinn í pappírsþunna fleyga), fínt rifinn börkur af 1/2 límónu, 100 g klettasalatsblanda, salt og smjör
1.Útbúið kúskúsið eftir leiðbeiningum á pakka. Saltið og setjið klípu af smjöri út á í lokin og hrærið í kúskúsinu með göfflum til þess að kornin loði ekki eins mikið saman.
2.Grillið paprikurnar á heitu grilli þar til þær hafa mýkst og kolast aðeins. Látið þær kólna áður en þær eru fræhreinsaðar og skornar í ræmur.
3.Setjið límónubörkinn útí kúskúsið og blandið vel. Látið því næst paprikuræmurnar, laukinn og klettasalatsblönduna útá og veltið öllu léttilega saman. Frábært salat með öllum fiski og ljósu kjöti.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2007 | 18:10
Ferskt túnfisksalat með engifer og lárperu
Góðir forréttir eru lystaukandi og ertandi fyrir bragðlaukana. Þeir kveikja í þannig að allur matur sem kemur á eftir rennur ljúflega niður. Þetta túnfisksalat virkar einmitt mjög vel að þessu leiti. Jafnvel tilhugsunin ein um ferskan og léttan túnfiskinn, ásamt mjúkri lárperu og engifer, kemur vatni fram í munninn.
4-500g ferskur túnfiskur (eða frosinn), 3 msk soyasósa, 2 msk ólífuolía, 3 cm biti af engiferrót (rifin), 1 þroskuð lárpera (afhýdd og skorin í sneiðar), 1 rauður chili (fræhreinsaður og skorin í sneiðar), Klettasalat, Viskur af ferskum kóreander, Soyasósa og límónusafi.
1.
Útbúið kryddlög úr soyasósu, rifinni engiferrót og ólífuolíu í skál. Veltið túnfisknum upp úr leginum, setjið plastfilmu yfir skálina og látið fiskinn liggja í leginum í um eina klukkustund í ískáp.
2.
Þegar túnfiskurinn er að fullu kryddleginn, hitið þá grillpönnu eða pönnu með þykkum botni og steikið hann á háum hita í um 2 mínutur á hvorri hlið. (Rétt steiktur túnfiskur á helst að vera bleikur inn við miðju)
3.
Skerið túnfiskinn í sneiðar og setjið salatið saman. Klettasalatið neðst, þá nokkrar sneiðar af lárperu, svo 2-3 sneiðar af túnfiski. Efst er svo stráð chillisneiðum og kóreanderlaufum.Kreystið að síðustu nokkra dropa af límónusafa yfir salatið og slettið örlitlu af soyasósu yfir það líka.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2007 | 12:37
Fæði og fjör
Tók þátt í Fæði og fjör hátíðinni í gærkvöldi og borðaði með fríðu föruneyti á Sjávarkjallaranum.
Það er óhætt að fullyrða að matur gestakokksins, Wikram Garg, hafi verið útbúin af gargandi snilld!
Sérstaklega var aðalrétturinn: Lambatvenna "Two ways" Tandoori lamba "lollipop", linsubaunir, mojito sósa, lamb með pistasíuhjúp, mintudjús. himnesk matarupplifun sem setti alla við borðið í hálfgerðan trans.
Mojito sósan, fengum við uppgefið , er útbúin þannig að mynta, chili,sítrónugras og líme eru látin malla í sykurlegi sem síðan er síjaður. Tandori kryddið, lambið og mojito, hvílík blanda! Enda ku þessi réttur hafa unnið keppnina um besta aðalréttinn.
Frábær hátíð, það er vel þess virði að sleppa því að fara út að borða allt árið og fara í staðinn öll kvöldin á Food and fun. Kannski geri ég það næsta ár. Ég er strax farin að hlakka til.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2007 | 17:32
Mörk og mæri
Fór í göngutúr í sólskininu á föstudaginn. Gekk stóran Neshring og aldrei þessu vant mundi ég eftir því að hafa myndavélina með. Fegurðin var ólýsanleg og.... getur verið að ég hafi heyrt í Lóu? Ég snar-stansaði og þegar ég leit upp sá ég bara Starra. Var skrattakollurinn að gera grín að mér og herma eftir Lóunni? Finnst eins og ég hafi heyrt að hann geri þetta stundum.
Tók glás af myndum í fjörunni. Varð allt í einu yfirmáta heimspekileg og fór að hugsa um mörk og mæri. Hvar byrjar eitt og endar annað ? Hver hefur umboð til að draga þá línu? Hvar eru mörk ljóss og skugga, himins og hafs, náttúru og mannvirkja, hafs og lands. Afraksturinn er í myndamöppunni " Mörk og mæri" hér á síðunni.
Matur og drykkur | Breytt 26.2.2007 kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2007 | 13:57
Gufusoðinn þorskur á hrognabeði
Hrogn eru skemmtilegur matur sem gaman er að föndra með og nota sem hráefni í dýrðlega fiskrétti. Hér er það hollustan og ferskleikinn sem ræður. Gufusoðið næstumþví sushi, laugað höfugu kryddsmjöri og með áferð hrognanna verður samsetningin hreint frábær.
1 brók af hrognum,1 flak af þorski,1 blað af nori sjávarsölum,1 rauður chili, 2 msk söxuð fersk steinselja, 3 msk smjör, rifinn börkur af 1/2 límónu, sjávarsalt og nýmalaður pipar, 3 gulrætur og 1/2 kúrbítur.
1. Saltið hrognabrókina og pakkið henni í plastfilmu, svo hún springi síður við suðuna. Látið síðan út í sjóðandi vatn og sjóðið hrognin í um 20-25 mínútur eftir stærð.
2.Skerið þorskinn í bita, saltið og piprið. Kippið Nori blaðið í u.þ.b. 2 cm strimla og vefjið einum strimli utan um hvern þorskbita. Festið með tannstöngli. Gufusjóðið þoskbitana yfir hrognapottinum í um 10-15 mínútur ( einfalt er að setja fiskinn í sigti yfir sjóðandi hrognunum og lok þar yfir.).
3.Fræhreinsið chilliið og skerið það í litla bita. Bræðið smjör á pönnu og setjið chillibitana, limonubörkinn, og saxaða steinselju útí.
4.Þegar fiskurinn og hrognin eru soðin, skerið hrognin þá í sneiðar með beittum hníf. Setjið tvær hrognasneiðar á hvern disk og þorskbita ofaná hrognin. Saltið og piprið og hellið svo kryddsmjörinu yfir.
Berið fram með fersku salati, ásamt gulrótum og kúrbít, skornum í strimla og steiktum í smjör og ólífuolíublöndu í 3-4 mínútur.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 13:01
Bloggað "Til hnifs og skeiðar"
Jæja, þá er komið að því að bloggsíða "Til hnífs og skeiðar" líti dagsins ljós en bloggsíðan heitir í höfuðið á samnefndum matarpistli sem hefur birst vikulega í Fréttablaðinu, með hléum, allt frá september 2003.
Í nóvember 2006 komu tvær matreiðslubækur út hjá bókaforlaginu Sölku eftir undirritaða og von er á fleiri bókum seinna á þessu ári. Bækurnar sem út eru komnar heita Hollt og ódýrt og Hollt og fljótlegt.
Hér á þessari síðu verður mér fátt óviðkomandi. Ég ætla að fjalla um mat og uppskriftir og birta myndir af réttunum og vonandi mörgu öðru sem á vegi mínum verður og vekur áhuga minn á einhvern hátt. Ég er amatör á þessum sviðum: Matreiðslu, ljósmyndun, bloggi, allt eru þetta verk sem ég bauka við svo til hjálparlaust, prófa mig áfram, læri af mistökum. Virðið því viljann fyrir verkið.
Matur og drykkur | Breytt 25.2.2007 kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)