Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að gera sér mat úr Zizek

zizek
 
Ég lofaði í byrjun bloggskrifa minna að fátt yrði mér óviðkomandi hér á þessari síðu. Vonandi gerir sér einhver samt mat úr þessu...
  
    Slavoj Zizek er poppstjarna í heimi mennigarfræða. Það sýndi sig vel í síðustu viku þegar kenningaþyrstir Íslendingar hópuðust í Öskju til að berja goðið augum og hlusta á fyrirlestur hans um það hvernig list geti verið róttæk  (subversive)  kollvarpandi, undangrafandi.

Við þurfum kenningar. Voru lokaorð prófessorsins, eftir nær tveggja tíma tölu þar sem hann boðar afturhvarf til aga og fagmennsku í listum. Það eitt að brjóta reglur og ganga fram af fólki hefur engin áhrif lengur að hans dómi, en þeir sem vilja hafa áhrif  með list sinni ættu frekar að beina sjónum að fjölmörgum svæðum og sviðum vestrænnar menningar sem við látum eins og séu ekki til.
(Þetta eru auðvita ekki ný vísindi. Ég man t.d. eftir kafla í Sérherbergi Virginíu Woolf (125 ára) þar sem hún hvetur listakonur til að gera akkúrat þetta.)
   
     Zizek er fyrst og fremst greinandi, hann kemur ekki með kenningar á silfurfati heldur bendir  á vöntunina í gnægðunum með hjálp frá Lacan. Nautnastefna vesturlandabúa er hol og snauð. Við viljum allt, en kaffið okkar er orðið koffeinlaust, gosdrykkirnir sykurlausir, smjörið fitusnautt, Kjarnanum og umfinu úr viðurværi okkar (andlegu og líkamlegu) hefur verið eytt á vísindalegan hátt svo við mettumst ekki en neysla og kaupmáttur haldi áfam að aukast. (Skv kapítalismanum helst þetta tvennt í hendur.) Geir Haarde sagði í sjónvarpinu á mánudaginn eitthvað á þá leið að það skipti mestu máli að kaupmátturinn hafi aukist. En á kostnað hvers Geir?  
   Engin stjórnmálastefna er lengur til sem dregur ágæti kapítalísks hagkerfis í efa.  Þannig er tilvistarkreppa vinstrimanna tilkomin þegar andstöðu þeirra við kapítalismann hefur verið eytt eins og koffeini úr kaffi.  Samkvæmt Zizek þá er tími til komin að fletta umbúðum af og horfast í augu við afleiðingar heimskapítalsismans. Þegar við sjáum tómleikann í afmælisveislu mesta kapítalista Íslands  annarsvegar og náum að skilja á breiðum grunni fórnirnar sem færðar eru  til að viðlíka veislur geti átt sér stað, þá fyrst getum við dæmt um hvort kapítalískt hagkerfi og mannúð geti haldist í hendur. 
Þetta segir Zizek og margt margt fleira. Ég bendi þeim sem vilja kynna sér hann betur á að leita að honum á utube.com en þar er fjöldi upptaka af fyrirlestrum hans og brot úr heimildamyndum um hann. Ég kann því miður ekki að setja slíkt hér inn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband